Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 650  —  451. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða o.fl. (veiðar á bláuggatúnfiski).

Frá matvælaráðherra.



I. KAFLI
Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 5. gr. er aðilum, sem uppfylla skilyrði 2. málsl. 5. gr., heimilt að taka á leigu erlent skip, til allt að sex mánaða hvert almanaksár, til veiða samkvæmt veiðiheimildum Íslands á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Heimild þessi gildir til og með 31. desember 2027.

II. KAFLI
Breyting á lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998.
2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. gr. er aðilum, sem uppfylla skilyrði 2. málsl. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, heimilt að taka á leigu erlent skip, til allt að sex mánaða hvert almanaksár, til veiða samkvæmt veiðiheimildum Íslands á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Heimild þessi gildir til og með 31. desember 2027.

III. KAFLI
Breyting á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997.
3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. gr. er aðilum, sem uppfylla skilyrði 2. málsl. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, heimilt að taka á leigu erlent skip, til allt að sex mánaða hvert almanaksár, til veiða samkvæmt veiðiheimildum Íslands á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Heimild þessi gildir til og með 31. desember 2027.
    

IV. KAFLI
Breyting á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991.
4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. er aðilum, sem uppfylla skilyrði 2. málsl. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, heimilt að taka á leigu erlent skip, til allt að sex mánaða hvert almanaksár, til veiða samkvæmt veiðiheimildum Íslands á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Heimild þessi gildir til og með 31. desember 2027.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Ísland hefur tryggt sér umtalsverðar veiðiheimildir af bláuggatúnfiski á vettvangi Atlantshafs-túnfiskveiðiráðsins (e. International Commission for the Conservation of Atlantic Tunas, ICCAT). Undanfarin ár hafa íslensk skip þó ekki stundað þessar veiðar, þannig að íslenskur sjávarútvegur nýtur ekki góðs af veiðiheimildunum.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (síðar matvælaráðuneytið) hefur verið með til skoðunar valkosti um hvernig túnfiskveiðar geti hafist að nýju og orðið hluti af íslenskum sjávarútvegi til framtíðar, með fullnýtingu hlutdeildar Íslands.
    Ráðuneytið hefur í samráði við helstu hagsmunaaðila unnið að frumvarpi að breytingum á lögum með ákvæðum til bráðabirgða, svo hægt verði að viðhalda veiðireynslu og hlutdeild Íslands í veiðunum til framtíðar og tryggja þjálfun og þekkingu á veiðunum sem nýst geta til veiða um ókomna tíð.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Áhugi á túnfiskveiðum innan íslenskrar lögsögu jókst á 10. áratug síðustu aldar þegar erlend skip fóru að stunda slíkar veiðar nálægt lögsögumörkunum. Japanskar útgerðir fóru að sækjast eftir heimild til að stunda túnfiskveiðar innan lögsögunnar og veitt voru leyfi til tilraunaveiða í samstarfi við Hafrannsóknastofnun.
    Í framhaldinu tóku íslenskar útgerðir að sýna þessum veiðum áhuga. Veiðunum er stjórnað af Atlantshafs-túnfiskveiðiráðinu (ICCAT) og var Ísland ekki aðili að ráðinu og hafði ekki veiðiheimildir þar. Á þeim tíma byggðust úthlutanir ICCAT nánast eingöngu á veiðireynslu og voru því mjög takmörkuð tækifæri fyrir nýja aðila að veiðunum. Íslensk stjórnvöld hófu þátttöku í starfi ICCAT sem áheyrnaraðili árið 1998. Megináhersla var lögð á að ná fram rétti strandríkja og þróunarríkja til að auka sínar veiðar á kostnað þáverandi stærstu veiðiríkja.
    Þetta leiddi til þess að viðmið varðandi úthlutun voru endurskoðuð, sem aftur skapaði grundvöll fyrir aðild Íslands að ICCAT. Eftir að Ísland gerðist formlegur aðili að ICCAT árið 2002 samþykkti ICCAT hlutdeild fyrir Ísland í stofni Austur-Atlantshafs bláuggatúnfisks sem átti að hækka á fjögurra ára stjórnunartímabili upp í u.þ.b. 0,2% af heildaraflamarki. Veiðar íslenskra skipa á þessum tíma voru hins vegar ekki umfangsmiklar. Reglulegar veiðar fóru fram frá Íslandi árin 2014–2016 og voru aflaheimildir fullnýttar árið 2015. Frá þessu tímabili hafa engar veiðar verið stundaðar. Úthlutun til Íslands af heildaraflamarki hefur svo aukist úr 0,2% í 0,5% af heildaraflamarki, vegna reglna ICCAT, og þar með skapast aðstæður til mun umfangsmeiri veiða en stundaðar voru árin 2014–2016.
    Þrátt fyrir auknar veiðiheimildir hefur verið takmarkaður áhugi hjá íslenskum útgerðum á túnfiskveiðum og útgerðir ekki lagt í þær fjárfestingar varðandi útbúnað til túnfiskveiða og frystigetu sem þeim tengist til að besta verðið fáist fyrir afurðirnar. Tímarammi veiðanna er á haustin og því ekki samfelld veiði yfir árið. Það horfir ekki til þess að stundaðar verði túnfiskveiðar við Ísland árið 2022, sem verður þá sjötta árið í röð þar sem engar beinar veiðar eru stundaðar þrátt fyrir að Ísland hafi umtalsverðar veiðiheimildir frá ICCAT. Um er að ræða vandasamar veiðar sem eru í eðli sínu ólíkar þeim línuveiðum sem almennt eru stundaðar við Ísland og krefjast ákveðinnar reynslu og útbúnaðar. Um er að ræða mjög verðmætan fisk og eftirspurn eftir veiðiheimildum er mikil innan ICCAT.
    Því hefur verið velt upp þeim möguleika að veittar verði tímabundnar bráðabirgðaheimildir varðandi skip og áhafnir, svo sá möguleiki verði fyrir hendi að útgerðir geti tekið á leigu erlend skip ásamt sérhæfðum skipverjum til að kanna hagkvæmni slíkra veiða og auka þekkingu og þjálfun í veiðunum hérlendis. Búast má við að sótt geti verið að veiðiheimildum Íslands innan ICCAT verði þær ekki nýttar til lengri tíma.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Samkvæmt íslenskum lögum kemur eingöngu til greina að veita leyfi til veiða í atvinnuskyni til skipa sem eru skráð á Íslandi, og veiðar og vinnsla skal vera af hálfu íslenskra aðila, eins og nánar greinir í 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, sbr. 1. gr. laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998.
    Til að stuðla að því að veiðar hefjist að nýju af Íslands hálfu er talið nauðsynlegt að lög veiti tímabundnar heimildir í ákvæðum til bráðabirgða til að heimila íslenskum aðilum að taka á leigu sérhæfð erlend skip til veiða á bláuggatúnfiski til að viðhalda veiðireynslu Íslands, kanna hagkvæmni veiðanna og byggja upp innlenda sérþekkingu á slíkum veiðum.
Þau lög sem frumvarpið leggur til breytingar á eru:
     *      Lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
     *      Lög um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998.
     *      Lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997.
     *      Lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991.
    Mikilvægt er að taka fram að umrædd ákvæði til bráðabirgða sem eru tímabundin til sex ára eru lögð fram sem undantekningartilvik frá þeirri grundvallarreglu í íslenskum sjávarútvegi að veiðar með íslenskum veiðiheimildum fari fram með íslenskum skipum og áhöfn. Um er að ræða veiðar sem þurfa sérútbúin skip, ekki liggur fyrir að slík skip séu til reiðu á Íslandi sem stendur. Viðbúið er ef veiðar ganga eftir að aðilar sjái sér hag í að tryggja að slík skip með útbúnaði til veiðanna verði skráð á Íslandi eftir sex ára tilraunatímabil sem lagt er til.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ekki er talið að frumvarpið gefi tilefni til að skoða samræmi við grundvallarlög og alþjóðlegar skuldbindingar að öðru leyti en því að frumvarpið stuðlar að því að viðhalda veiðireynslu og hlutdeild Íslands í veiðum á bláuggatúnfiski til framtíðar samkvæmt reglum ICCAT. Veiðarnar byggjast á sjálfbærri auðlindanýtingu á vísindalegum grunni, sem er í samræmi við skuldbindingar Íslands í málefnum lífrænna auðlinda hafsins, m.a. sbr. Hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna.

5. Samráð.
    Helstu hagsmunaaðilar varðandi efni frumvarpsins eru Sjómannasamband Íslands, Félag skipstjórnarmanna, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.
    Forsamráð fór fram í maí og júní 2021 með Sjómannasambandi Íslands, Félagi skipstjórnarmanna, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, sem hafði einnig sent erindi til ráðuneytisins varðandi málið í febrúar 2021. Einnig hefur átt sér stað samráð við þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sem fer með skráningu skipa og við skrifstofu orku, iðnaðar og viðskipta í þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu vegna laga er varða erlenda fjárfestingu í atvinnurekstri.
    Áform um lagasetningu ásamt frummati á áhrifum voru birt í samráðsgátt stjórnvalda frá 5. janúar 2022 til og með 18. janúar 2022 (mál nr. S-4/2022). Engar umsagnir bárust.
    Drög að frumvarpi þessu voru birt í samráðsgáttinni frá 21. janúar 2022 til og með 4. febrúar 2022 (mál nr. S-17/2022). Var athygli hagsmunaaðila frá forsamráði vakin á málinu. Engar umsagnir bárust.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum hins opinbera. Ef verður af veiðum á bláuggatúnfiski gæti það skilað tekjum í ríkissjóð í formi skatta, og leyfis- og þjónustugjalda síðar. Áhrif á stjórnsýslu eru óveruleg og hún í stakk búin til að taka við þeim verkefnum sem frumvarpið mælir fyrir um.
    Að því marki sem sjómenn eru að meiri hluta karlkyns hefur fyrirhuguð lagasetning frekar áhrif á karlmenn en konur. Hins vegar er ekki talið að áformin komi til með að hafa áhrif á jafnrétti kynjanna.
    Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er jákvæð. Mikilvægt er að viðhalda veiðireynslu og hlutdeild Íslands hjá ICCAT. Þannig verður hægt að byggja upp innlenda þekkingu og reynslu til veiða og kanna hagkvæmni þeirra sem getur orðið grundvöllur að fjárfestingu í útbúnaði og skapað tekjur, störf og þjónustu í kringum atvinnugreinina. Veiðar íslenskra aðila á bláuggatúnfiski gæti orðið andlag rannsókna og nýsköpunar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1.–4. gr.

    Í ákvæðum 1.–4. gr. frumvarpsins kemur fram að aðilum, sem uppfylla skilyrði 2. málsl. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, verði heimilt að taka á leigu erlent skip, til allt að sex mánaða hvert almanaksár, til veiða samkvæmt veiðiheimildum Íslands á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Ákvæði þessi til bráðabirgða falla úr gildi 31. desember 2027. Þannig munu íslenskir aðilar áfram standa að veiðunum en með möguleika á að taka á leigu sérhæft erlent skip ásamt skipverjum til veiða á þessum tiltekna bláuggatúnfiski á grundvelli veiðiheimilda frá ICCAT, í ákveðinn tíma. Ekki er talin þörf á skýringum að öðru leyti en því sem kemur fram í almennum hluta greinargerðar.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.